A A A
Veftré
Valmynd Greinar/Pistlar Tenglar

Almennt um starfsemina

Sólstafir eru óformleg grasrótarsamtök kvenna og starfshættir markast af því. Ábyrgð á daglegu starfi deila starfskonur jafnt. Starfskonur Sólstafa eru ekki sérfræðingar, sálfræðingar, geðlæknar eða félagsráðgjafar. Þær koma frá margvíslegum starfsstéttum og það sem tengir þær saman er reynsla þeirra sjálfra af kynferðisofbeldi. Þar sem menntun ein og sér tryggir ekki góðan skilning á kynferðisofbeldi og afleiðingum þess fyrir einstaklinginn sem verður fyrir því.  

Í Sólstöfum er ekki litið á einstaklinga sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi sem varnarlaus fórnarlömb eða sjúka einstaklinga. Heldur eru þetta einstaklingar sem hafa lifað af ógnandi ofbeldi og búa þess vegna yfir miklum styrk. Vinnan í Sólstöfum felst einna helst í því að gera einstaklinga meðvitaða um eigin styrk og aðstoða þá við að breyta sjálfsímynd sinni og eigin lífi. Í Sólstöfum er litið svo á að þeir einstaklingar sem þangað leita séu ,,sérfræðingarnir” það er enginn þekkir betur afleiðingar kynferðisofbeldis en sá sem hefur verið beittur því. Þar er leitast við að skapa jafnræðistengsl og nánd milli starfskvenna og þeirra sem aðstoðar leita.  

Tekjur Sólstafa koma frá styrkjum velunnarra. Í Sólstöfum starfa fjórar konur sem taka ákvarðanir í stefnumarkandi málum, hafa yfirsýn yfir og stjórn á fjármálum. Það er búið að ráða eina starfskonu tímabundið til að sjá um daglegan rekstur vinna að sérverkefnum og virkja kraft samtakanna (febrúar, 2015). Starfskonur Sólstafa vinna í nánu samstarfi við Stígamót. Þær leita sér ráðgjafar þangað án þess að brjóta traust þeirra sem leita til Sólstafa. Einnig leita þær til Aflsins á Akureyri eftir samstarfi þegar þarf. Starfskonur hafa sótt nokkur leiðbeinandanámskeið hjá Stígamótum eins og þeir gera sem leiða sjálfshjálparhópa þar. Starfskonur Sólstafa sækja fyrirlestra, málþing, málstofur og þau námskeið sem eru í boði til þess að styrkja sig persónulega og til þess að verða færar í að aðstoða þá einstaklinga sem leita til Sólstafa.   

Hverjir leita til Sólstafa?
 
Ø  Einstaklingar leita til Sólstafa ef þeir hafa sjálfir orðið fyrir kynferðisofbeldi
Ø  Einstaklingar sem þekkja einhvern sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi
Ø  Einstaklingar sem eru að leita að ráðgjöf og upplýsingum um kynferðisofbeldi  

Fólk á öllum aldri leitar til Sólstafa, í dag eru það aðallega konur en karlmenn sem hafa lent í kynferðiofbeldi eða þekkja einhvern sem hefur lent í kynferðisofbeldi eru velkomnir. Þeir einstaklingar sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og leita til Sólstafa í fyrsta sinn er boðið upp á einkaviðtöl. Þá er það einstaklingsbundin stuðningur við að ræða ofbeldið, rifja það upp og setja í orð. Einstaklingarnir ráða sjálfir ferðinni, hve mikinn stuðning þeir vilja og í hvað langan tíma. Sólstafir bjóða einnig upp á sjálfshjálparhópa eftir að einstaklingurinn hefur komið í nokkur einkaviðtöl. Aðstandendur, foreldrar, makar og vinir geta leitað til Sólstafa og fengið stuðning og ráðgjöf óski þeir þess.  

Einkaviðtöl
 
Einstaklingsviðtöl eru í boði hjá Sólstöfum fyrir þá sem þangað leita, bæði konur og karla. Í einstaklingsviðtölunum fer fram einstaklingsbundinn stuðningur við að ræða ofbeldið, rifja það upp og setja í orð. Þetta eru oft fyrstu skref einstaklingsins til þess að ná tökum á afleiðingum ofbeldisins, á sjálfsmynd og sjálfsvirðingu. Þeir ráða sjálfir ferðinnni,  þ.e. hversu mikinn stuðning þeir vilja og í hve langan tíma.
Inntakið í stuðningi Sólstafa er:
Ø  Að koma því til skila að einstaklingur beri ekki ábyrgð á að hann/hún hafi verið beitt kynferðisofbeldi og það sé aldrei hægt að réttlæta kynferðisofbeldi.
Ø  Að gera einstaklingum ljóst maður skilja að þeir hafi gert allt sem það gátu til að berjast á móti kynferðisofbeldinu
Ø  Að fullvissa einstaklinga um að fæstum takist að verjast þeirri árás sem kynferðisofbeldi er, en þeir muni smám saman takast að ná fullri stjórn á lífi sínu.
Ø  Að sýna og láta í ljós að þeir sé jafnmikils virði þó þeir hafi orðið fyrir þessari erfiðu reynslu. 

Sjálfshjálparhópar 
Sólstafir stefna á að fara af stað með fleiri sjálfshjálpahópa og mun það starf fara af stað haustið 2015. Nú þegar hafa tveir hópar verið starfræktir. Stefnt er að því að gera þessa hópa kjarnann í starfsemi Sólstafa. Í sjálfshjálparhópum koma 5 – 6 einstaklingar saman til þess að sækja styrk til að takast á við vandamálin, sem rekja má til afleiðinga ofbeldisins. Sjálfshjálparhópar eru þátttakendum að kostnaðarlausu. Sjálfshjálparhópar hittast 15 sinnum og í hverjum tíma er tekið fyrir eitt umræðuefni sem tengist afleiðingum ofbeldisins. Í eitt skipti af þessum fimmtán er notaður annar tjáningarmáti en hið talaða orð, þá er ýmist notað pappír, liti eða úrklippur. Hópurinn vinnur þá að myndgerð í eina klukkustund án þess að tala saman, síðan fer drjúgur tími í að ræða um þessa reynslu og hið óvænta sem iðulega kemur fram á myndunum.  
Markmið sjálfshjálparhópa er:
Ø  að læra að þekkja tilfinningar sínar
Ø  að öðlast sjálfstraust
Ø  að fá að vita að þetta er ekki manni sjálfum að kenna, ofbeldismaðurinn er eingöngu ábyrgur
Ø  að finna að maður er ekki einn með sínar tilfinningar
Ø  að öðlast nýja sýn á kynferðisofbeldið og sjálfan sig
Ø  að gera sér grein fyrir hverjar afleiðingar ofbeldisins eru að læra að takast á við þær
Ø  að saga okkar er ekki aðalatriðið heldur afleiðingarnar á líf okkar í dag
Ø  að læra að standa með sér
Ø  að rjúfa einangrun
Ø  að læra að treysta
Ø  að læra að setja sjálfum sér mörk og stefnur í lífinu  

* texti fenginn að stórum hluta að láni af heimasíðu Stígamóta með samþykki þeirra.

Fréttasafn

Eldri fréttir
Á döfinni Tenglar
Vefumsjón